23.2.2007 | 17:37
Zero tolerance
Á Íslandi er nokkuð stór hópur af plebbum, sem finnst fátt meira töff en að keyra um á bílum sínum niður Laugarveginn, blasta græjurnar í botn og fylgjast með því hver veitir þeim athygli í von um að sjá öfundarsvip vegfarenda yfir þeirra glæsikerrum. Þetta er háttarlag sem ég hef hreinlega aldrei skilið og væri gaman að fá að heyra frá einhverjum ástæðuna fyrir þessu. Þetta sama lið er svo að keyra eins og vitleysingar um allar götur og núna nýlega voru tveir hálfvitar stöðvaðir eftir mikinn eltingarleik við lögreglu og mikið eignartjón. Ungir ökumenn, í eilífri leit af viðurkenningu frá sínum vinum og væntanlegum kærustum leggja líf sitt og annarra að veði með ofsaakstri og hvað eru til mörg dæmi um að þetta háttarlag hefur komið mörgum unglingnum í gröfina löngu fyrir sinn tíma. Þetta er ein ástæðan fyrir því að ég, 32 ára gamall maður, er ekki enn kominn með bílpróf og það að ég fyllist skelfingu við þá til hugsun að setjast undir stýri og fara með tonn af járni, gleri og bensíni út í umferðina.
Eftir mörg dauðsföll og ofsaakstur á síðasta ári þá fóru menn aftur að hugsa um það að hækka bílprófsaldurinn í von um að nýir ökumenn verða komnir með almennilegan þroska þegar þeir fá bíllyklana loks í hendur. Ég held að það sé ekki endilega lausnin. Við höfum alltaf haft 17 ára aldurinn sem bílprófsaldur frá því að þetta var fyrst sett í lög. Vandamálið er að refsingin er ekki nógu hörð. Þyngja þarf refsinguna til muna svo að þeir sem verða uppvísir að slíku háttarlagi leggi ekki í það að reyna það aftur. Zero Tolerance er hugtak sem kemur frá Ameríku þar sem fólk fær bara eitt tækifæri til þess að sanna sig og ef það brýtur af sér þá missir það réttindi sín eða fær gífurlegar fjársektir. Réttast væri að hver nýr ökumaður væri með reynslu ökuréttindi til þriggja ára og ef hann brýtur af sér alvarlega á þeim tíma þá missir hann það í nokkur ár. Ég held að tilhugsunin við það að geta ekki keyrt með vinum sínum eða heillað stúlkur með bílnum sínum sé skelfileg í hugum margra unglinga.
Það þýðir ekkert að svipta ungling ökuréttindum í sex mánuði því að hann á ekkert eftir að þroskast á þeim tíma og er í raun bara bitur út í yfirvaldið að hafa vogað sér að skipta sér að sínu ökulagi. Sex mánuðum síðar fer hann aftur bak við stýrið og brunar af stað.
Ef þessir krakkar vilja halda því fram að þau séu fullorðin þá verða þau að vera tilbúin að lifa í fullorðins samfélagi og taka ábyrgð á sínum gerðum. Það verður að hrista upp í þeim svo að þau taki svona hluti alvarlega.
Athugasemdir
Mér finnst ekkert sjálfgefið að hækka bílprófsaldurinn þótt nokkrir krakkar hagi sér eins og fífl í umferðinni og miklu skynsamlegra að leita annarra leiða til að taka á þeim sem brjóta af sér, flest ungmenni fara varlega með það vald sem felst í því að stjórna bíl.
Ég er ekkert sérstaklega hlynnt zero tolerance stefnunni amerísku en í þessu tilfelli finnst mér hún svo sem eiga ágætlega við, miðað við alvarleika brotanna sem maður hefur heyrt um undanfarið. Ofsaakstur og eltingaleikur á nærri 200 kílómetra hraða er ekki eitthvað sem maður vill lenda í miðjunni á. Ég skil bara vel að þú skulir vera efins um að taka þitt eigið bílpróf!
Anna, 24.2.2007 kl. 13:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.